Enski boltinn

Klopp til í skrúð­göngu missi Man. City tvo titla til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp í skrúðgöngu eftir að Liverpool vann úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2019.
Jürgen Klopp í skrúðgöngu eftir að Liverpool vann úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2019. Getty/Paul Cooper

Jürgen Klopp, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpoool, leyfði sér að skjóta aðeins á Manchester City og Manchester United þegar hann hélt opinn fund með stuðningsfólki í gærkvöldi.

Klopp mætti fyrir framan tíu þúsund stuðningsmenn Liverpool og svaraði spurningum. Hann sagði þó frá því að hann mætti ekki tala um ákveðna hluti eins og TNT sjónvarpsstöðina, dómara, Manchester City, fjárhagsmál og VAR.

Hann var samt spurður út í möguleikann á því að Liverpool fengi tvo meistaratitla ef City yrði refsað fyrir brot á rekstrarreglum. City er með 115 kærur á sér en ekki er búið að taka kærumálin fyrir.

„Ef þið skipuleggið skrúðgöngu, þá mæti ég. Það skiptir ekki máli hversu langan tíma þetta tekur,“ svaraði Klopp.

Hann skaut líka á kaup Manchester United á Jadon Sancho eða aðallega að félagið hafi losað sig við hann. 

„Ég get ekki samþykkt það að hann sé gagnslaus. Kaupa leikmann fyrir áttatíu milljónir punda og senda hann síðan í burtu á láni,“ sagði Klopp. Sancho er kominn alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Borussia Dortmund.

Klopp réð heldur ekki við tárin þegar allur salurinn söng til hans í gær: „I'm so glad that Jürgen is red“.

Þetta var lokakveðja hans í Liverpool en nú hefur þýski stjórinn endanlega sett punkt á bak við tíma sinn hjá Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×