Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir FH. Afturelding vann fyrsta leik liðanna í Kaplakrika en síðan hefur FH unnið tvo leiki í röð með minnsta mögulega mun.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var eðlilega nokkuð súr eftir seinna tapið en var staðráðinn í að vinna næsta leik, sem fer fram klukkan 19:40 í kvöld við Varmá í Mosfellsbæ.
Langt síðan síðast
Þetta er í annað sinn sem FH og Afturelding mætast í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Það gerðist einnig 1999, fyrir 25 árum, en það ár vann Afturelding einnig úrslitaleik liðanna í bikarnum sem og einvígið um Íslandsmeistaratitilinn, 3-1, og urðu Íslandsmeistarar í fyrsta og eina sinn í sögu félagsins.
Tímabilið var eftirminnilegt fyrir Aftureldingu sem vann í raun þrefalt; Íslandsmeistara, bikarmeistara- og deildarmeistaratitilinn.


Afturelding er í úrslitum í fimmta sinn. Mosfellingar unnu 1999, eins og áður sagði, en töpuðu 1997, 2015 og 2016.
Frá því úrslitakeppnin var tekin upp er FH í sjöunda sinn að leika úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn. FH-ingar urðu meistarar 1992 og 2011 en töpuðu í úrslitum 1993, 1999, 2017 og 2018.
Myndasyrpu frá Íslandsmeistarafögnuði FH árið 2011 má sjá hér fyrir neðan.
Bæði lið eiga því harma að hefna eftir töp í síðustu tveimur úrslitaviðureignum sínum. Tvöfalda tapið árið 1999 situr vafalaust ennþá í FH sem vill ganga frá einvíginu í kvöld en Afturelding þarf að vinna næstu tvo leiki til að hampa titlinum.
Leikur Aftureldingar og FH hefst klukkan 19:40 í kvöld. Hægt verður að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi sem fer í loftið 19:00.