Leeds er í eigu 49ers Enterprises, dótturfélags San Francisco 49ers sem leikur í NFL deildinni. Milljarðamæringurinn Denise DeBartolo York er eigandi og forstjóri félaganna.
Hún hefur sótt stuðning frá mörgum stjörnum vestanhafs í formi fjárfestinga, auglýsinga og umtals. Will Ferrell, Russell Crowe, Jordan Spieth og Michael Phelps hafa undanfarin ár keypt hlut í Leeds og gerst opinberir stuðnings- og talsmenn félagsins.
Red Bull hefur nú keypt sig inn í félagið en þetta er í fyrsta sinn sem orkudrykkjaframleiðandinn fjárfestir í ensku félagi. Utan fótboltans hefur Red Bull einnig verið stórtækt í fjárfestinum, mikið í jaðaríþróttum en þekktasta dæmið er líklega Formúlu 1 kappaksturslið þeirra, sem er ríkjandi heimsmeistari í bílasmíðum og hefur undir stýri heimsmeistarann Max Verstappen.
Fyrir á Red Bull nokkur félög í New York, Bragantino, Salzburg og Leipzig. Fyrst nefndu félögin þrjú heita eftir fyrirtækinu; Red Bull New York, Red Bull Bragantino og Red Bull Salzburg, Leipzig gerir það á óbeinan hátt og ber nafnið RB Leipzig til að hlýða regluverki þýsku úrvalsdeildarinnar sem leyfir félögum ekki að heita eftir fyrirtækjum.
Leeds mun ekki fylgja þeim eftir í því og mun áfram bera heitið Leeds United. Red Bull mun hins vegar vera aðal samstarfsaðili þeirra í auglýsingum, sem verða settar framan á búninginn, og skaffa liðinu ógrynni af orkudrykkjum og varningi tengdum Red Bull sem leikmenn munu láta sjá sig með á fjölmiðlaviðburðum.
„Markmiðið er að koma Leeds aftur í ensku úrvalsdeildina og festa félagið í sessi í fremstu fótboltadeild heims. Við hlökkum til samstarfsins og erum jákvæð og orkumikil fyrir framtíðinni,“ segir Oliver Mintzlaff forstjóri Red Bull.