Í kjölfarið ákváðu þrjár stúlkur að taka viðtal við Sólrúnu Öldu og skrifuðu svo um hana bók sem þær afhentu henni í gærmorgun.
„Þetta er svolítið skrítið,“ segir Sólrún Alda um bókina. Á sama tíma finnist henni frábært að svo ungar stúlkur hafi áhuga á að vera öruggar og á eldvörnum.

Fram kemur í tilkynningunni að nemendur hafi spurt Sólrúnu þegar hún kom hvort henni þætti auðvelt að segja sögu sína.
„Nei, það er ekki auðvelt! En mér finnst þetta mikilvægt. Ég held að fólk pæli ekkert mikið í eldvörnum og því að vera öruggt. Maður heldur alltaf að þetta komi ekki fyrir sig,“ segir Sólrún Alda Waldorff.
Sólrúnu Öldu var haldið sofandi í heilan mánuð eftir að henni var bjargað úr eldsvoða í Hlíðunum í Reykjavík haustið 2019. Hún hlaut alvarleg brunasár og var um tíma ekki hugað líf. Hún hefur síðan verið í endurhæfingu og gengið í gegnum margar húðágræðslur. Skólaheimsóknin er einn liður í bataferlinu.
Eldvarnir í útikennslu
Í tilkynningu frá skólanum segir að eldvarnir séu meðal viðfangsefna í útikennslu í skólanum. Lokaverkefni nemenda hafi átt að fjalla það.
„Við ætluðum bara að gera verkefni um eldvarnir, af því að hún Sólrún Alda lenti í eldsvoða,“ segir Linddís Lilja Dal Lárusdóttir ein þeirra sem gerði bókina.
Saga Pála Guðjónsdóttir bætir við að það verði að vera greiðar útgönguleiðir, sýnileg slökkvitæki og reykskynjarar í öllum herbergjum ef það skyldi kvikna í. „Það þarf að minna fólk á þetta.“
En var þetta erfitt verkefni?
„Ég myndi ekki segja að það hafi verið erfitt að búa bókina til,” segir Lóa Birna Bogadóttir, „en það var erfitt að sjá hvað hún Sólrún Alda er brunnin.“ „Og í hverju hún lenti,“ bætir Saga Pála við.