Fyrir leikinn var ljóst að Magdeburg dygði eitt stig til að tryggja sér titilinn. Og það var aldrei hætta á að annað myndi gerast. Magdeburg var alltaf með forystuna, var átta mörkum yfir í hálfleik, 11-19, og vann á endanum þrettán marka sigur, 21-34.
Magdeburg var þegar búið að vinna þýsku bikarkeppnina, HM félagsliða og er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið mætir Álaborg. Magdeburg getur því unnið fjórfalt á tímabilinu.
3️⃣x💚❤️ - Wir holen das Triple 🏆🏆🏆
— SC Magdeburg (@SCMagdeburg) May 30, 2024
_____#SCMHUJA 💪🏻 pic.twitter.com/doTAGXqvmt
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk og gaf þrjár stoðsendingar í liði Magdeburg. Janus Daði Smárason skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar og Gísli Þorgeir Kristjánsson átti eina stoðsendingu.
Ýmir Örn Gíslason lék í kvöld sinn næstsíðasta leik fyrir Löwen en hann fer til Göppingen eftir tímabilið. Ljónin frá Mannheim eru í 11. sæti deildarinnar.
Bergischer, sem Arnór Þór Gunnarsson stýrir, á enn möguleika á að bjarga sér frá falli eftir ævintýralegan sigur á liðinu í 2. sæti, Füchse Berlin, 29-30. Eloy Morante Maldonado skoraði sigurmarkið þegar ein sekúnda var eftir af leiknum.
Bergischer er með tuttugu stig í sautjánda og næstneðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Erlangen sem er í sætinu fyrir ofan.
Í lokaumferðinni á sunnudaginn þarf Bergischer að vinna Flensburg og treysta á að Erlangen tapi fyrir Hannover-Burgdorf. Ekki nóg með það heldur þarf Bergischer að vera með betri markatölu en Erlangen. Bergischer er núna með 72 mörk í mínus en Erlangen með 67 mörk í mínus.