Á UFC 302 mættust meðal annars þeir Kevin Holland og Michal Oleksiejczuk. Holland hrósaði sigri en hann handleggsbraut Oleksiejczuk í bardaganum.
Holland náði Oleksiejczuk í gólfið og hélt um handlegginn á Pólverjanum. Hann neitaði hins vegar að gefast upp og biðja dómarann um að stöðva bardagann.
Holland hélt áfram að setja pressuna á handlegginn á Oleksiejczuk, allt þar til hann brotnaði. Sá pólski neitaði enn að gefast upp en á endanum gat dómarinn Herb Dean ekki annað en að stöðva bardagann.
Í kjölfarið stökk Holland út úr búrinu og fagnaði með Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem var á meðal áhorfenda í Prudential Center í New Jersey.
Holland var að vonum sáttur með sigurinn en vonar að Oleksiejczuk sé ekki illa meiddur.
„Gaurinn gerði mér ekki neitt svo ég vil ekki að það gerist neitt fyrir hann,“ sagði Holland. „Að sjálfsögðu vildi ég vinna bardagann því ég vil fá borgað en ég vildi ekki meiða hann. Ég vona að hann sé í lagi.“