Innlent

Út­lendinga­frum­varpið af­greitt út úr þing­nefnd

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Vísir/Vilhelm

Á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis var útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra afgreitt út úr nefndinni.

Fundi nefndarinnar lauk á tólfta tímanum en Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar greindi frá þessum tíðindum í hádegisfréttum Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.

„Við afgreiddum þar út tvö mál, annað mál varðar fullnustu refsinga og samfélagsþjónustu og hitt er útlendingamálið sem við vorum að afgreiða inni í nefndinni á milli annarrar og þriðju umræðu og höfum núna afgreitt út þannig að við væntum þess að þriðja umræða um það mál muni fara fram núna á næstu dögum.“

Bryndís segir að fullur vilji sé til þess meðal ríkisstjórnarflokkanna að klára málið fyrir sumarfrí.

„Meirihlutinn er með álit á milli annarrar og þriðju umræðu sem verður þá dreift á þinginu síðar í dag og ég geri ráð fyrir því að það verði eitthvað minnihlutaálit líka sem muni þá birtast á vef þingsins innan skamms.“

Bryndís var spurð hvort nefndin hefði gert breytingu á frumvarpinu.

„Nei, við erum ekki að gera tillögu að breytingu á frumvarpinu ein sog það kláraðist í gegnum aðra umræðu. Við vorum auðvitað með breytingu á upphaflegu frumvarpi ráðherrans sem laut aðeins að ákveðnum hvata varðandi fjölskyldusameiningar þannig að það væri hvati til að læra íslensku og ef fólk væri búið að koma sér sæmilega fyrir þá gæti það óskað eftir fjölskyldusameiningu fyrr. En við erum ekki að gera breytingu núna á milli annarrar og þriðju umræðu.“


Tengdar fréttir

Ríkisstjórnarsamstarfi lokið nái frumvarpið ekki í gegn

Fundi í Allsherjar-og menntamálanefnd var frestað skyndilega í morgun þar sem útlendingafrumvarpið átti að vera fyrst á dagskrá. Þingmaður Miðflokksins í nefndinni telur þetta merki um ágreining milli stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnarsamstarfinu sé lokið verði frumvarpið ekki afgreitt úr nefndinni í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×