Það er Fotbolldirekt frá Svíþjóð sem greinir upphaflega frá en sænsku félögin AIK og Häcken eru sögð hafa áhuga á að fá Brynjólf Andersen í sínar raðir þegar hann verður fáanlegur á frjálsri sölu.
Fyrr á þessu ári reyndi sænska félagið Kalmar að kaupa framherjann knáa en það gekk ekki etir. Virðist áhugi Kalmar hafa kólnað en liðið er um þessar mundir í bullandi fallbaráttu í Svíþjóð.
Þá er danska stórliðið Bröndby einnig sagt áhugasamt en liðið var hársbreidd frá því að verða Danmerkurmeistari nú á dögunum. Allt kom fyrir ekki og Midtjylland stóð uppi sem danskur meistari.
Brynjólfur Andersen lék með Breiðabliki í Bestu deildinni árin 2019 og 2020 áður en Kristiansund keypti leikmanninn. Gengið hefur verið upp og ofan þar sem liðið féll og spilaði í norsku B-deildinni á síðasta ári.
Það kom hins vegar beint aftur upp og er nú í þéttum pakka ásamt fjölda liða sem reynir nú að taka skrefið upp í efri hlutann þegar 11. umferðir eru búnar í Noregi.
Alls hefur Brynjólfur leikið 83 leiki fyrir Kristiansund, skorað 17 mörk og gefið 15 stoðsendingar. Þá á hann að baki tvo A-landsleiki, gegn Hondúras og Gvatemala fyrr á þessu ári og eitt mark sem kom í 2-0 sigrinum á Hondúras.