Erlent

Leit Trump að vara­for­seta­efni að komast á skrið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kandídatarnir sjö sem miðlar vestanhafs segja hafa fengið símtal frá kosningateymi Trump. Efst til vinstri og hringinn: Vance, Stefanik, Carson, Burgum, Scott, Rubio og Donalds.
Kandídatarnir sjö sem miðlar vestanhafs segja hafa fengið símtal frá kosningateymi Trump. Efst til vinstri og hringinn: Vance, Stefanik, Carson, Burgum, Scott, Rubio og Donalds. Getty

Kosningateymi Donald Trump hefur óskað eftir gögnum frá nokkrum einstaklingum sem miðlar vestanhafs segja tengjast leit forsetans fyrrverandi að varaforsetaefni.

Teymið heldur spilunum hins vegar þétt að sér og einn ráðgjafa Trump, Brian Hughes, segir alla þá ljúga sem segjast vita hvern Trump hyggst velja eða hvenær hann hyggst tilkynna um val sitt. 

Sjálfur hefur Trump gefið til kynna að hann muni greina frá ákvörðun sinni á landsþingi Repúblikana í júlí.

Nýjust fregnir herma að öldungadeildarþingmennirnir Marco Rubio og J.D. Vance og Doug Burgum, ríkisstjóri Norður-Dakóta, séu meðal þeirra sem koma til greina. Þeir hafa fengið gagnapakka frá kosningateyminu í tengslum við valferlið.

Þá hefur einnig verið haft samband við öldungadeildarþingmanninn Tim Scott, fulltrúadeildarþingmennina Elise Stefanik og Byron Donalds og Ben Carson, sem var húsnæðismálaráðherra í forsetatíð Trump.

Trump hefur nefnt ýmsa mögulega kandídata en með tilliti til áreiðanleika yfirlýsinga forsetans er erfitt að segja til um hversu mikil alvara honum er. Hann hefur hins vegar útilokað Nikki Haley, sem bauð sig fram gegn Trump en lýsti svo yfir stuðningi við hann í lok maí.

Trump sagði í kjölfar stuðningsyfirlýsingarinnar að það yrði pláss fyrir Haley „í liðinu“ en gaf ekki til kynna að afstaða hans til Haley sem varaforsetaefnis hefði breyst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×