Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir aðgerðir lögreglunnar frá því um síðustu helgi einfaldlega enn í fullum gangi. Þá kannaði lögregla stöðuna hjá rúmlega 105 leigubílstjórum og voru gerðar athugasemdir hjá tæplega helmingi þeirra.
Ásmundur Rúnar segir ekkert nýtt hafa komið fram í eftirlitinu í dag. Meira af því sama.
„Það eru margir með hlutina í lagi, einhverjir sem þurfa aðeins að lagfæra og eiga von á sektum,“ segir Ásmundur Rúnar.
Daníel O. Einarsson, formaður Frama - félags leigubílstjóra, sagðist í viðtali við fréttastofu í gær taka eftirliti lögreglunnar gagnvart leigubílstjórum fagnandi. Sagðist hann hafa miklar áhyggjur af nýliðum í stéttinni.
Ásmundur segir ekkert frekar merkja athugasemdir við óreyndari leigubílstjóra en þá reyndari.
„Þetta eru allt frá því að vera nýir og yfir í að vera reyndir leigubílstjórar.“