Heimir sat sinn fyrsta blaðamannafund sem þjálfari írska landsliðsins í dag. Með honum á fundinum var Marc Canham, íþróttastjóri írska knattspyrnusambandsins. Hann var spurður út þjálfaraleit írska knattspyrnusambandsins sem tók 231 dag.
Stephen Kenny hætti sem þjálfari írska liðsins í nóvember í fyrra og John O'Shea stýrði því þar til tilkynnt var um ráðningu Heimis í gær.
Voru tilbúnir að bíða
Að sögn Canham er nokkuð síðan ákveðið var að ráða Heimi sem þjálfara írska landsliðsins.
„Í mars ákvað valnefndin okkar að Heimir væri okkar fyrsti kostur,“ sagði Canham. „En hann var mjög trúr jamaíska landsliðinu. Við virtum þá ákvörðun, héldum sambandi við Heimi og vorum tilbúnir að bíða eftir því að hann yrði laus.“
Írska knattspyrnusambandið sagði upphaflega að nýi landsliðsþjálfarinn yrði kynntur snemma í apríl. Canham sagði að það hefðu verið mistök. Betra hefði verið að segja að sambandið ætlaði sér að finna rétta manninn í starfið, sama hversu langan tíma það tæki.
Blaðamannafund Heimis má sjá hér fyrir neðan.
Samkvæmt frétt Independent á Írlandi fær Heimir hærri laun en Kenny var með. Hann var með 550 þúsund evrur í árslaun en Heimir fær 650 þúsund evrur sem samsvarar um 97 milljónum íslenskra króna. Þá fær Heimir veglegan bónus ef hann kemur Írlandi á HM 2026.
Fyrsta verkefni Heimis með Írland er B-deild Þjóðadeildarinnar í haust. Þar eru Írar í riðli með Englendingum, Grikkjum og Finnum. Heimir stýrir Írlandi í fyrsta sinn gegn Englandi í Dublin 7. september.