Aspirnar við Austurveginn á Selfossi, sem tilheyri þjóðvegi eitt í kringum landið voru gróðursettar í eyjarnar um 1990 og hafa sómt sér vel á staðnum. Sveitarfélagið Árborg og Vegagerðin ákváðu hins vegar nýlega að láta saga niður trén og er hluti þeirra horfin en nokkrar aspir standa enn sem á líklega eftir að fella líka með keðjusöginni.
„Og í staðin munu koma ný reynitré, svokölluð borgartré eins og það er kallað. Verktakinn hjá Vegagerðinni er núna búin að fjarlægja hluta af öspunum,” segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri í Árborg.
„Eftir nokkrar vikur verðum við komin með fallega ásýnd aftur hérna á Austurveginn hjá okkur,” bætir Bragi við.
En var komin tími á þessi tré eða hvað?
„Já samkvæmt fagaðilum þá voru þær búnar að vera hér í tugi ára, vaxa mjög vel og dafna, þá voru þær komnar á tíma, það var eiginlega eins og þeir sögðu, hætta ef það kæmi bara mikill hvellur eða stormur, þá væri raunveruleg hætta á að þær gætu gefið sig og lagst á veginn. Þetta er bæði umferðaröryggismál og bara að við viljum alltaf reyna að fegra bæinn og þetta er svona hluti af því,” segir Bragi.

En hvernig skynjar Bragi tóninn hjá bæjarbúum, eru þeir fegnir að losna við aspirnar eða er fólk leidd yfir því?
„Ég heyri frekar almenna ánægju eftir að við sýndum myndirnar hvernig þetta gæti litið út á eftir en auðvitað er sál, sem fylgir trjám og maður skilur það mjög vel að það eru ekkert allir sáttir.”
Og svo á að setja upp öryggisgirðingu í beðið þar sem aspirnar stóðu.

„Já, við erum auðvitað að reyna að auka öryggi, að fólk nýti sér gangbrautirnar í staðin fyrir það að hlaupa yfir. Það er gríðarleg mikil umferð í kringum hringtorgið og í kringum miðbæ Selfoss, þannig að þetta á líka að vera umferðisöryggisatriði hvað það varðar að við verðum að nýta okkur gangbrautirnar en ekki hlaupa yfir þar sem best er,” segir Bragi bæjarstjóri í Árborg.
