Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands lýsir því að atvik við úthlutun matargjafa Fjölskylduhjálpar í Iðufelli í Breiðholti á þriðjudag hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Þar hafi gríðarlegur fjöldi fólks verið samankominn til að sækja mat. Tveir erlendir menn hafi þá krafist þess að fara fram fyrir röðina.
„Þá byrjuðu þeir bara að hóta sjálfboðaliðunum og hóta að fara heim til þeirra og slíkt, þannig að það var hringt á lögregluna,“ segir Ásgerður í samtali við fréttastofu. Hún fór einnig ítarlega yfir málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Þrjú útköll í Iðufellið á árinu
Mennirnir hafi verið á bak og burt þegar lögreglu bar að garði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu hafa lögreglumenn þrisvar verið kallaðir að húsnæði Fjölskylduhjálpar í Iðufelli það sem af er ári.
„Við erum búin að þola þetta í nokkur ár en eins og andinn er í þjóðfélaginu þá hefur maður ekki viljað segja frá því, því að þegar eitthvað er sagt í sambandi við útlendinga er maður bara stimplaður sem rasisti og er algjörlega hogginn í spað á netinu.“
Er ekki svolítið ósanngjarnt að láta hegðun kannski frekar fárra bitna á stærri hópi?
„Ég get svarað því þannig að þetta eru ekkert fáir einstaklingar og við getum ekki látið þetta ganga yfir fólk sem eru Íslendingar, prúðir og koma vel fram. Og meirihlutinn af innflytjendum, þeir eru prúðir og huggulegt fólk, en svona verðum við einhvern veginn að bregðast við.“
Ekkert annað í stöðunni
Ásgerður segir að enn eigi eftir að útfæra breytt fyrirkomulag nákvæmlega. Fjölskylduhjálp hafi einu sinni áður gripið til þess að hafa sérdaga fyrir Íslendinga og sérdaga fyrir útlendinga. Ásgerður segir að með þessu muni þjónustan við útlendingana þó ekki bíða hnekki.
En þetta hljómar nú svolítið eins og mismunun, að hólfa þetta svona niður?
„Já, þú getur túlkað það eins og þú vilt. Og þetta er týpískt fyrir það hvernig ákveðnir hópar í þjóðfélaginu vilja túlka þetta en einhvern veginn verðum við að bregðast við,“ segir Ásgerður.
„Það er svo alrangt að ég sé einhver rasisti. Það hefur sjálfsagt enginn hjálpað jafnmörgum útlendingum og við höfum gert í Fjölskylduhjálpinni.“