Vinstri bakvörðurinn skrifar undir samning út tímabilið 2026. Hann hafði ákveðið að reyna fyrir sér hjá Kolding í dönsku B-deildinni en rifti samningi sínum fyrir ekki svo löngu síðan. Hann var orðaður við lið AB í C-deildinni í Danmörku, sem Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfar, en hefur ákveðið að snúa aftur í Kópavoginn.
Davíð gekk til liðs við Breiðblik árið 2016, þá 16 ára gamall. Hann var áður í FH. Hann hefur spilað samtals 173 leiki fyrir græna liðið í Kópavogi og skorað fjögur mörk.
„Þetta eru frábærar fréttir, Davíð er virkilega öflugur leikmaður og styrkir hópinn vel fyrir komandi átök,“ segir í tilkynningu Blika.
Breiðablik tekur á móti KR á morgun, sunnudag. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport.