Tónlist

Ó­vænt að heyra að fólkið á LungA hafi alist upp við Hjalta­lín

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hljómsveitin kom fram á LungA um helgina eftir nokkurra ára hlé.
Hljómsveitin kom fram á LungA um helgina eftir nokkurra ára hlé. Hjaltalín

Hljómsveitin Hjaltalín kom fram sem síðasta atriði síðustu LungA-tónlistarhátíðarinnar sem fór fram núliðna helgi eftir langt hlé hljómsveitarinnar. Sigríður Thorlacius, söngkona Hjaltalín, segir tækifærið hafa komið á hárréttum tíma og útilokar ekki að hljómsveitin komi fram að nýju. 

LungA-hátíðin var haldin í síðasta skipti um helgina eftir að hafa verið árlegur liður í menningarlífi Seyðisfjarðar í aldarfjórðung. Þátttakendur sem fréttamaður á svæðinu ræddi við um helgina voru flestir leiðir yfir því að hátíðin yrði ekki haldin aftur. 

Endurkoma verið yfirvofandi

Nokkrir gestir sem fréttamaður ræddi við sögðu hápunkt hátíðarinnar þegar Hjaltalín steig á svið, síðasta hljómsveitin á dagskrá síðustu LungA-tónleikanna. Fimm ár eru síðan hljómsveitin kom síðast fram, en hvað kom til að hún stökk á þetta tækifæri á þessum tímapunkti?

„Þau höfðu samband við okkur og biðluðu til okkar hvort við værum til í þetta,“ segir Sigríður Thorlacius í samtali við fréttastofu. Þau hafi verið fljót að samþykkja boðið. 

„Það var í fyrra, fyrir jól, að við vorum farin að tala saman um hvort okkur langaði að gera eitthvað smávægilegt. Spila tónleika, eins og í gamla daga, með efni sem við eigum í dag,“ bætir hún við. Þegar bónin kom frá skipuleggjendum LungA hafi þeim þótt kjörið að stökkva á tækifærið. 

Þau hafi byrjað á að hittast og æfa nokkur lög og sjá hvernig þeim líkaði. „Þetta var ótrúlega gaman og við vorum öll svo glöð og fannst skemmtilegt að hittast aftur eftir svona langan tíma.“

Átti ekki von á slíkum undirtektum unga fólksins

Sigríður segir tilfinninguna að koma fram á ný ótrúlega góða. „Það var kannski pínu fiðrildi, langt síðan við höfum gert þetta.“

Hún segist hissa hvað hljómsveitin hafi fengið fallegar móttökur. Það hafi komið þeim á óvart hve margir hefðu kunnað lögin og sungið með. 

„Þetta var pínulítið óvænt af því að við erum auðvitað töluvert eldri en unga fólkið á LungA. Ég átti ekkert endilega von á að þau hefðu verið að hlusta á þessa tónlist,“ segir Sigríður. 

„Ég hitti einhverjar fallegar ungar manneskjur sem voru að segja, þetta er músíkin sem ég var alin upp við! Þá erum við komin svolítið á annað level. Þá erum við komin með aðra kynslóð af hlustendum og mér þótti ótrúlega vænt um það að eldast og ná nýjum hlustendum líka og finna að við fáum að fylgja einhverju fólki frá því að þau voru lítil. Það er svolítið mögnuð tilfinning,“ bætir hún við, það hafi hljómsveitin ekki upplifað áður. 

Sigríður segist ekki útiloka að Hjaltalín geri eitthvað meira í framhaldinu, eftir að framkoman á LungA heppnaðist svo vel. Áhugasömum sé bent á að fylgjast með miðlum sveitarinnar. 

„Það var óvæntur og skemmtilegur heiður að fá að vera síðasta bandið á síðasta LungAnu. Þegar svona gott tækifæri býðst og allir eru stilltir á sömu bylgjulengd er ekkert skemmtilegra,“ segir Sigríður að lokum. 


Tengdar fréttir

Komið að endalokum eftir 25 ár

Listahátíðin Lunga fer nú fram á Seyðisfirði í síðasta sinn eftir tuttugu og fimm ára farsæla sögu. Skipuleggjendur segja tímamótin einkennast af trega og gleði í bland. Lokakvöld hátíðarinnar fer nú í hönd, þar sem haldnir eru stórtónleikar í tilefni endalokanna. Líf og fjör var á Seyðisfirði síðdegis og hátíðargestir greinilega spenntir fyrir kvöldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×