Fram kom í fréttum í gær að tilkynningum til barnaverndar hafi fjölgað umtalsvert að undanförnu. Meðal annars tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna sem hefur fjölgað um rúmlega þrjátíu prósent á milli ára. Munar þar mestu um aukinn fjölda tilkynninga vegna neyslu barna á vímuefnum, en nær öllum tegundum tilkynninga til barnaverndar hefur fjölgað undanfarin ár.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði framkvæmdastjóri Barnaheilla að skýra forystu skorti í málaflokknum, og skoraði á stjórnvöld að bregðast við. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður velferðarnefndar, tekur undir að þróunin sé mikið áhyggjuefni.
„Það hlýtur alltaf að vera ástæða til þess að hafa áhyggjur þegar það berast fréttir um að það séu aukin tilfelli um tilkynningar til barnaverndar og mikilvægt að reyna að grafast fyrir um það hver sé orsökin til þess að það sé hægt að gera eitthvað til að vinda ofan af málum,“ segir Steinunn Þóra.
Hún telji tilefni til að málið verði tekið fyrir á vettvangi velferðarnefndar. „Þetta er væntanlega á forræði mennta- og barnamálaráðuneytisins en ég sé það fyrir mér að þetta sé eitthvað sem við í velferðarnefnd, og ég þá sem formaður þeirrar nefndar, munum taka fyrir og skoða enn frekar,“ segir Steinunn.
Hún segir málið þess eðlis að líklega verði gestir kallaðir fyrir nefndina eftir að þing kemur aftur saman í haust. „Þetta er auðvitað líka mál sem snertir líka sveitarfélögin og nærumhverfi barnanna. En þetta hins vegar eru ekki bara viðvörunarbjöllur, þetta eru rauð ljós um það að við þurfum að taka betur utan um mál barna. Við viljum að sjálfsögðu ekki sjá fréttir um það að til að mynda neysla á vímuefnum sé að aukast. Þannig að sjálfsögðu þurfum við að taka þetta alvarlega,“ segir Steinunn Þóra.
„Þetta er mál sem að allir stjórnmálamenn hljóta að taka alvarlega og þetta er eitthvað sem við munum vinna með áfram.“