Í könnun Reuters og Ipsos, sem framkvæmd var á mánudag og þriðjudag mældist Harris, sem hefur svo gott sem tryggt sér útnefningu Demókrataflokksins, með 44 prósent atkvæða. Donald Trump, frambjóðandi Repúblikana, mældist með 42 prósent atkvæða.
Munurinn milli þeirra er ekki tölfræðilega marktækur og könnunin var framkvæmd á landsvísu, en forsetakosningar í Bandaríkjunum ráðast oftar en ekki á niðurstöðum í fáum mikilvægum ríkjum.
Í könnunum sem framkvæmdar voru af Ipsos áður en Biden tilkynnti ákvörðun sína var munurinn milli þeirra Harris og Trumps enn minni. Dagana 15. til 16. júlí mældust þau bæði með 44 prósent fylgi og dagana 1. til 2. júlí leiddi Trump með einu prósentustigi.