Enski boltinn

Ederson spilaði æfinga­leik en Pep veit ekki hvort hann verði á­fram

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ederson hefur verið orðaður við brottför í allt sumar.
Ederson hefur verið orðaður við brottför í allt sumar. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, veit ekki hvort hann fái að halda aðalmarkmanni liðsins í sumar. Ederson spilaði æfingaleik í gær en mögulega er hann á leið til Sádi-Arabíu.

„Ég veit ekki hver staðan er, hann er með aðra möguleika en auðvitað vil ég hafa hann áfram. Það hefur enginn haft samband síðustu daga. Þetta snýst bara um að æfa, vera með okkur þar til félagaskiptaglugginn klárast en við skulum sjá hvað gerist,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi eftir 4-3 tap gegn Celtic í æfingaleik vestanahafs í nótt. 

Ederson spilaði seinni hálfleikinn en þetta var fyrsti æfingaleikur liðsins á undirbúningstímabilinu.

Ederson er sagður á leið frá félaginu til Al-Ittihad í Sádi-Arabíu. Orðrómar þess efnis hafa verið á sveimi í allt sumar og það var nokkuð óvænt þegar Ederson fór með í æfingaferð Manchester City.

Síðast í fyrradag sagði félagaskiptamógúllinn Fabrizio Romano að fjögurtíu milljóna punda tilboð Al-Ittihad hefði verið samþykkt og samningar væru frágengnir.

Pep Guardiola virðist hins vegar ekkert vita um það og framtíð Ederson verður óráðin um einhvern tíma enn.

Talið er að City hafi sett sig í samband við Gianluigi Donnarumma, markmann PSG og fyrirliða ítalska landsliðsins, til að taka við keflinu ef Ederson fer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×