Ummælin lét hann falla í viðtali við Tucker Carlson árið 2021, en myndband þar sem hann lætur ummælin falla hefur farið á verulegt flug á samfélagsmiðlum síðustu daga. Í viðtalinu sagði hann að þessar kattarkonur vildu gera alla aðra óhamingjusama vegna eigin óánægju með líf sitt og val. Ummælin hafa víða vakið upp hörð viðbrögð.
Demókrataflokkurinn ófjölskylduvænn
„Þetta er augljóslega kaldhæðnisleg athugasemd. Fólk er að einblína of mikið á kaldhæðnina en ekki það sem ég raunverulega átti við,“ sagði Vance í viðtali við Megyn Kelly á föstudaginn. „Ég stend ennþá við kjarnann í því sem ég sagði,“ sagði hann.
Kveðst hann ekki hafa verið að gagnrýna barnlaust fólk, heldur Demókrataflokkinn, sem hann segir reka ófjölskylduvæna og óbarnvæna stefnu.

„Það sem ég átti við, er að þegar maður eignast börn, verður faðir eða móðir, ég held það hafi verulega mikil áhrif á lífsviðhorfin sem maður hefur,“ sagði Vance.
„Samfélagið okkar er farið að líta barneignir hornauga, það er það sem ég er að segja,“ sagði Vance, sem á þrjú börn sjálfur.
Barnlaust fólk fararbroddi Demókrataflokksins
Í upphaflega viðtalinu árið 2021, þar sem hann lét ummælin falla, gerði hann athugasemdir við það að sumir pólitískir leiðtogar ættu ekki börn, til dæmis Kamala Harris. Harris er stjúpmóðir tveggja barna en á ekki börn sjálf.
„Ég óska Harris, stjúpbörnum hennar og allri hennar fjölskyldu alls hins besta. Ég er ekki að segja að hún sé ómerkilegri en aðrir sem eiga börn. Punkturinn í því sem ég er að segja er að hennar flokkur hefur rekið mjög óbarnvæna stefnu við stjórnvölin,“ sagði Vance.
Þá ítrekaði Vance að gagnrýnin beindist ekki gegn fólki sem getur ekki eignast börn af líffræðilegum eða öðrum læknisfræðilegum ástæðum.