Erlent

Fjöldi barna stunginn á Norðvestur-Englandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn við vettvang árásarinnar í Southport við ána Mersey á norðvestanverðu Englandi.
Lögreglumenn við vettvang árásarinnar í Southport við ána Mersey á norðvestanverðu Englandi. AP/James Speakman/PA

Að minnsta kosti átta manns voru stungnir þegar karlmaður gekk berserksgang í bænum Southport á Norðvestur-Englandi í dag. Fórnarlömbin eru sögð börn en árásarmaðurinn er í haldi lögreglu sem lagði einnig hald á hníf.

Árásin átti sér stað um klukkan 11:50 að staðartíma, eða 10:50 að íslenskum. Breska ríkisútvarpið BBC segir að sjúkraliðið á staðnum hafi sinnt að minnsta kosti átta manns með stungusár. Stórslysavakt var lýst yfir á Alder Hey-barnaspítalanum vegna þess.

Staðarblaðið Liverpool Echo hefur eftir heimildum sínum að einn sé látinn og að talið sé að það sé barn. Allt að tíu manns, börn og fullorðnir, hafi verið fluttir á sjúkrahús með meiriháttar áverka.

Lögreglan segir að frekari ógn steðji ekki að almenningi eftir að vopnaðir lögreglumenn höfðu hendur í hári árásarmannsins.

BBC hefur jafnframt eftir Tim Johnson, blaðamanni frá staðarmiðlinum Eye of Southport, sem kom á vettvang um tuttugu mínútum eftir að lögregla var kölluð til að árásin hafi verið gerð í félagsmiðstöð fyrir börn í gömlu vöruhúsi. Fórnarlömbin séu börn. Hann hafi meðal annars séð stúlku alblóðuga á sjúkrabörum.

„Foreldrar hennar hlupu á eftir henni. Þetta var hræðilegt. Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Johnson.

„Ég sá sjúkraliða, karla og konur, grátandi. Fólk grét á götum úti.“

Forsætisráðherrann sleginn yfir tíðindunum

Southport er strandbær á norðvesturströnd Englands, tæpa þrjátíu kílómetra norður af Liverpool.

Colin Parry, eigandi verkstæðis nærri vettvangi árásarinnar, segir AP-fréttastofunni að hann telji að fjöldi barna hafi verið stunginn.

„Þetta er eins og eitthvað frá Bandaríkjunum, ekki sólríka Southport,“ sagði hann. BBC segir að Parry hafi gert lögreglu viðvart um árásina.

Keir Starmer, forsætisráðherra, sagði fréttirnar frá Southport, hryllilegar og sláandi í færslu á samfélagsmiðlinum X. Hann fái reglulegar upplýsingar um framvindu mála þar. Sagði hann hug sinn hjá þeim sem ættu um sárt að binda.

Yvette Cooper, innanríkisráðherra Bretlands, lýsti yfir áhyggjum af árásinni á X.

Steve Rotherham, borgarstjóri Liverpool-stórborgarsvæðisins, hvatti fólk til þess að bíða eftir upplýsingum frá opinberum aðilum og forðast að dreifa óstaðfestum orðrómum eða röngum upplýsingum.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×