Árásin átti sér stað á námskeiði í armbandagerð og dansi með Taylor Swift þema fyrir börn á aldrinum sex til ellefu ára í hádeginu í gær.
Að sögn lögreglu er árásarmaðurinn sautján ára gamall. Hann fæddist í Cardiff í Wales eru foreldrar hans frá Rúanda. Frá árinu 2013 hefur hann hins vegar verið búsettur í þorpinu Banks nærri Southport.
Vitni segja manninn hafa komið á staðinn með leigubíl sem hann neitaði að greiða fyrir. Skömmu síðar hafi nokkur ung börn sést blóðug úti á götu.
Sex og sjö ára stelpur létust af sárum sínum í gær og níu ára stelpa til viðbótar í morgun. Fimm börn liggja þungt haldin á sjúkrahúsi og tvö fullorðin til viðbótar. Önnur þeirra er kennari námskeiðsins sem reyndi að skýla börnunum.
Patrick Hurley, þingmaður Southport, segir árásina fordæmalausa og lýsti henni sem mesta illvirki í sögu svæðisins, þegar hann ræddi við fjölmiðla í morgun. Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands segir þjóðina í áfalli.
Starmer sagði nær ómögulegt að ímynda sér sorgina og áfallið sem aðstandendur og fórnarlambanna séu að ganga í gegnum. Íbúar Southport hafa í morgun og í gær lagt blóm bangsa nærri húsnæðinu þar sem árásin var framin. Söngkonan Taylor Swift sagðist í yfirlýsingu vera í áfalli og varla geta komið líðan sinni og samúð í orð.
Efnt verður til bænastundar í Southport í kvöld og mörgum fyrirtækjum borgarinnar hefur verið lokað af virðingu við aðstandendur.