Í umfjöllun Sky News kemur fram að nokkur hundruð manns hafi safnast saman fyrir utan bústað forsætisráðherra að Downingstræti 10 í Lundúnum, kastað blysum og bjórdósum í grindverk og kallað upphrópanir á borð við „bjargið börnunum“ og „stöðvið bátana“.
Sautján ára piltur er í haldi lögreglu grunaður um að hafa stungið þrjár barnungar stúlkur til bana í bænum Southport á mánudaginn. Fimm til viðbótar liggja þungt haldnar á spítala. Óeirðir brutust út í Southport í gær skömmu eftir að minningarathöfn vegna stúlknanna þriggja fór fram í bænum.
Hópur óeirðaseggja kastaði flugeldum, steinum og flöskum að mosku í borginni, braut rúður, kveikti í lögreglubíl og grýtti lögreglu.
Mótmælin koma í kjölfar rangra staðhæfinga öfgahægrihópa um að pilturinn sem grunaður er um verknaðinn sé hælisleitandi. Þvert á meiningar mótmælenda er hann ekki sagður hafa nein tengsl við íslam og lögregla telur ljóst að ákveðnir hópar vilji notfæra sér árásina til að kynda undir ofbeldi.
Sky News hefur eftir lögreglu að yfir hundrað manns hafi þegar verið handteknir í tengslum við átökin í Lundúnum og að lögregla sé að ná tökum á ástandinu.
Þá hafi óeirðir brotist út í bænum Hartlepool í Norður-Englandi og eldur verið kveiktur í lögreglubíl. Lögregla hafi handtekið fjóra í þeim aðgerðum. Svipuð atburðarás hafi átt sér stað í Manchester þegar óeirðarseggir köstuðu hlutum í lögreglumenn og almenning.