Sport

Enginn getur brennt sig á Ólympíu­eldinum í París

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marie-Jose Perec og Teddy Riner kveiktu Ólympíueldinn sem var samt enginn eldur eftir allt saman.
Marie-Jose Perec og Teddy Riner kveiktu Ólympíueldinn sem var samt enginn eldur eftir allt saman. Getty/Carl Recine

Það er margt öðruvísi en við erum vön á þessum sumarólympíuleikum. París hefur farið nýjar leiðir á mörgum sviðum og lagt ofurkapp á það að gera þessa leika að umhverfisvænum og hagkvæmum Ólympíuleikum.

Meðal þess sem er sérstakt við þessa leika er Ólympíueldurinn sem er kveiktur við upphaf leikanna og slökktur við lok þeirra.

Ekki á Ólympíuleikvanginum

Ólympíueldurinn er vanalega hluti af Ólympíuleikvanginum en þar sem setningarhátíðin fór fram á Signu í þessum leikum þá var hann ekki þar. Það þurfti því að hugsa út fyrir kassann þegar kom að sjálfum Ólympíueldinum.

Það var stór stund á setningarhátíðinni þegar eldurinn sveif upp í loftið fyrir neðan risastóran loftbelg og það er endurtekið á hverju kvöldi þegar það dimmir.

Eldurinn er staðsettur í Tuileries garðinum við hið heimsfræga Louvre safn í miðborg Parísar.

Engar grillaðar dúfur

Það muna kannski sumir eftir því þegar dúfurnar grilluðust þegar Ólympíueldurinn var kveiktur á leikunum í Seoul 1988 en það er enginn hætta á slíku núna. Enginn getur brennt sig á Ólympíueldinum í París af þeirri einföldu ástæðu að hann er í raun ekki eldur.

Þetta er líka í fyrsta sinn sem Ólympíueldurinn er ekki eldur. LED ljós og úðakerfi sem sprautar vatni úr öllum áttum er hannað þannig að það lítur út fyrir að þarna sé eldur að brenna.

Umhverfisvænt

Vatnssprauturnar eru um tvö hundruð talsins og ljósin fjörutíu talsins.

Skipuleggjendur leikanna segjast hafa farið þessa leið að umhverfisvænum ástæðum. Það breytir ekki því að þetta kemur mjög vel og það er stór stund á hverju kvöldi þegar eldurinn svífur upp í loftið við sólarlag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×