Íslenski boltinn

Spilaði sinn fyrsta leik á Ís­landi í 18 ár

Siggeir Ævarsson skrifar
Aron Einar spilaði síðast á Íslandi 2006
Aron Einar spilaði síðast á Íslandi 2006 Þór fótbolti

Landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi, Aron Einars Gunnarsson, spilaði sinn fyrsta leik á Íslandi síðan 2006 þegar hann kom inn á sem varamaður í leik Þórs og Njarðvíkur í Lengjudeildinni í dag.

Aron hélt í atvinnumennsku 17 ára gamall en hann er uppalinn Þórsari og lék með liðinu í 1. deild bæði 2005 og 2006 en gekk til liðs við AZ í Hollandi það sama ár.

Hann samdi á dögunum við uppeldisklúbb sinn á Akureyri en það hefur verið nokkuð á reiki hvort hann myndi yfirhöfuð spila með liðinu í Lengjudeildinni. Mikið hefur verið rætt um að Aron fari til Belgíu, til Kortrijk á lán, sem leikur undir stjórn Freys Alexanderssonar.

Ekkert hefur þó orðið úr þeim félagskiptum enn og Aron Einar var í leikmannahópi Þórs sem tók á móti Njarðvík í dag. Aron kom inn á af bekknum í stöðunni 0-2 á 67. mínútu og í kjölfarið skoruðu heimamenn tvö mörk, það seinna eftir fyrirgjöf Arons.

Lokatölur á Akureyri 2-2 í fyrsta leik Arons Einars Gunnarssonar í íslenska boltanum í 18 ár sem nældi sér einnig í gult spjald í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×