Sport

Græddi meira en milljarð á því að skemmta sér á Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bandarísku fjölmiðlarnir misstu ekki af því sem Snoop Dogg tók sér fyrir hendur í París.
Bandarísku fjölmiðlarnir misstu ekki af því sem Snoop Dogg tók sér fyrir hendur í París. Getty/Alex Gottschalk

Rapparinn Snoop Dogg var hrókur alls fagnaðar á Ólympíuleikunum í París en kappinn var ekki mættur þangað bara fyrir heiðurinn eða áhuga sinn á Ólympíuleikunum.

Nú er komið fram í dagsljósið að Snoop Dogg var á þrusu launum fyrir að skemmta sér og öðrum á Ólympíuleikunum.

Snoop Dogg deildi sjálfur frétt á sínum samfélagsmiðlum þar sem kom fram að hann hafi fengið 447 þúsund Bandaríkjadali á dag fyrir vinnuna sína á Ólympíuleikunum. Það gerir rúma 61 milljón króna í laun á dag.

Það var líka allt borgað undir Snoop á leikunum, eins og gisting, ferðalög, matur og annað. Hann kom því út í hreinum gróða.

Reif upp stemmninguna

Það er samt ekki hægt að segja annað en að Snoop Dogg hafi skilað sínu starfi upp á tíu.

Hann var mættur til Parísar til að rífa upp stemmninguna og auka athygli á keppnisgreinum leikanna. Hvert sem hann fór þá var hann hrókur alls fagnaðar og bandaríska íþróttafólkið tók honum fagnandi.

Þessi tilraun heppnaðist líka vel fyrir þá sem borguðu fyrir hann reikninginn því allir fjölmiðlar voru uppfullir af fréttum um það sem Snoop tók sér fyrir hendur þessa daga í París.

Níu milljónir Bandaríkjadala

Hann var líka tilbúinn að prófa alls konar íþróttir auk þess að lýsa keppnum með sínum einstaka hætti. Fyrir vikið fengu fleiri íþróttir sviðsljósið.

Snnop Dogg var alls í sautján daga á Ólympíuleikunum og fékk því næstum því níu milljónir dollara að launum fyrir þessa ferð. Það gerir meira en milljarð í íslenskum krónum.

Tölurnar tala og það er strax farið að orða kappann við næstu Ólympíuleika. Áhorfið á Ólympíuleikana jókst nefnilega um 79 prósent í bandarísku sjónvarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×