Þátturinn sem Jökull kemur fram í verður sýndur á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS þann 27. september næstkomandi. Þar mun hann flytja eitt af frægustu lögum sveitarinnar í þættinum, Way Down We Go.
„Þetta er hálffyndið allt saman. Ég var að spila fyrir sirka mánuði síðan á Ítalíu hjá Andrea Bocelli. Hann hefur held ég verið í þessum þáttum sjálfur og var búinn að bjóða öllu þessu liði og ég sat við borð þarna og var að flytja nokkur lög. Þetta var einhver svona fyndin hugmynd sem mér fannst ansi skondin á þeim tíma. Svo einhvern veginn vatt þetta upp á sig og ég er farinn að lesa einhverjar línur og leggja þetta á minnið og leika í einhverjum þáttum. Þetta er kannski meira í gríni gert,“ segir Jökull í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Jökull gerir létt grín að hlutverki sínu í þáttunum og kveðst ekki stefna að leggja leikaraferilinn fyrir sig.
„Þetta var nú bara hálf sakleysislegt og svo flutti ég eitt lag. Ég var sem sagt bara að leika sjálfan mig. Ég er enginn leikari og er ekki að stefna að því að vera neinn leikari. Þetta var bara fróðlegt að vera á setti. Þetta eru kannski ekki vönduðustu þættir sem fyrirfinnast en þetta er bara skemmtilegt ævintýri,“ segir Jökull.
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:
Í faðmi leikara Glæstra vona
Jökull tók sig vel út á setti í Los Angeles með leikurum einnar frægustu sápuóperu veraldar Bold and the Beautiful, eða Glæstum vonum 19. ágúst síðastliðinn.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá tökustað þáttanna í CBS Television City í Los Angeles 19. ágúst síðastliðinn:









Fetar í fótspor Lil Nash og Usher
Þættirnir eru heimsfrægir, gerast í Los Angeles og hverfast að mestu um Forrester fjölskylduna. Sú rekur eitt frægasta tískuhús í heimi í þáttunum góðu þar sem Ridge Forrester, Brooke og Taylor Forrester hafa oftar en ekki verið í stærstu hlutverkunum. Þættirnir eru Íslendingum góðkunnir enda verið sýndir á Stöð 2 um árabil.