Gestir Menningarnætur urðu margir varir við mikinn viðbúnað lögreglu og slökkviliðs í miðborg Reykjavíkur á tólfta tímanum í gær. Yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar segir útkall um alvarlega líkamsárás, þar sem hnífi var beitt, hafa borist um hálf tólf.
„Lögregla fór þegar á staðinn með sjúkraliðum, og naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra líka þar sem vitað var að vopni hafði verið beitt. Þar kom í ljós að það voru þrír brotaþolar sem höfðu verið stungnir. Þeir voru allir fluttir á bráðamóttöku Landspítalans til aðhlynningar,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar.
Hinn grunaði hafi ekki verið handtekinn á vettvangi, heldur á heimili sínu.
„Fyrstu andartökin og mínúturnar fóru í það að ná utan um þetta ástand á vettvangi. Það liðu einhverjar klukkustundir áður en hann var handtekinn.“
Allt Íslendingar
Í tilkynningu lögreglu segir að einn brotaþola sé alvarlega slasaður og hafi gengist undir aðgerð í nótt.
„Það er mat lækna að viðkomandi sé í lífshættu,“ segir Grímur. Aðspurður segir hann að um fjóra Íslendinga sé að ræða.
Lögreglan tekur einnig fram í tilkynningu sinni að brotaþolar og hinn grunaði séu ungt fólk, og málið unnið í samvinnu við barnaverndaryfirvöld.
Eru allir sem koma að þessu máli, brotaþolarnir þrír og hinn grunaði, undir átján ára aldri?
„Já, eftir því sem ég kemst næst þá er það svo,“ segir Grímur.