Clayton var ekki bara í skrifstofuvinnu heldur spilaði hann rúgbý í 8. deildinni á Englandi. Er nema von að fólk spyrji sig að því hvernig í fjandanum hann fékk samning hjá stórliði Buffalo Bills?
Það kom nefnilega ekkert meira á óvart í nýliðavali deildarinnar en er Bills valdi Clayton.
Nýtti tækifærið vel
Clayton er mikill íþróttamaður og árið 2019 fór hann í NFL Academy sem þá var að byrja í Bretlandi. Þar fá táningar frá Evrópu og Afríku tækifæri til þess að sýna sig fyrir NFL-liðunum.
Hann var svo einn af sextán sem komst á annað NFL-námskeið þar sem leikmenn utan Bandaríkjanna fá annað tækifæri til þess að sanna sig. Það námskeið stóð yfir í tíu vikur og Bretinn sló í gegn þar.
Fyrir vikið fékk hann boð á Pro Day í mars þar sem útsendarar allra liða skoða leikmenn fyrir nýliðavalið sem fór fram mánuði síðar.
Þar sem hann hefur aldrei spilað leik í amerískum fótbolta þá var ákveðið að gera hann að sóknarlínumanni. Það er ekki bara styrkurinn sem vakti athygli heldur hraðinn líka. Enginn sóknarlínumaður í tíu hefur hlaupið 40 jarda hlaup hraðar en hann. Clayton hljóp 40 jarda á 4,79 sekúndum sem er ótrúlegur tími fyrir 140 kílóa mann.

Honum var í kjölfarið boðið í heimsókn til fimm félaga. Buffalo var ekki eitt þeirra þó svo menn á vegum félagsins hafi hringt í hann.
„Ég var kominn á þann stað að ég átti aldrei von á því að vera valinn. Svo kom símtal frá Bills sem kom mér mjög á óvart. Ég hélt að félagið hefði engan áhuga,“ sagði Clayton.
„Þetta varð ekki raunverulegt fyrr en ég kom inn í klefa Bills og sá nafnið mitt þar. Nú þarf ég að láta hendur standa fram úr ermum.“
Þarf að vera þolinmóður
Hann varð aftur á móti fyrir axlarmeiðslum í júlí og hefur ekki getað tekið þátt í undirbúningsleikjum Bills. Á morgun verður æfingahópurinn svo skorinn niður í 53 leikmenn.
Clayton verður líklega ekki einn af hinum útvöldu. Aftur á móti verður hann væntanlega í æfingahópnum og bíður eftir sínu tækifæri. Meiðsli í NFL-deildinni eru algengari en í flestum öðrum íþróttum og því gæti tækifærið komið með skömmum fyrirvara.