Víkingar eru aðeins annað íslenska félagið í sögunni til að komast alla leið í Sambandsdeildina en deildin hefur tekið miklum breytingum frá því að Blikarnir spiluðu í fjögurra liða riðli í fyrra.
Að þessu sinni spila Víkingar við sex ólíka andstæðinga, þrjá á heimavelli og þrjá á útivelli.
Víkingar spila þessa leiki frá byrjun október fram að jólum. Fyrri hluta þess tíma eru þeir einnig að spila í úrslitakeppni Bestu deildarinnar.
Fyrsti leikur Víkingsliðsins í Sambandsdeildinni verður á útivelli á móti Omonia frá Kýpur en hann fer fram 3. október.
Úrslitakeppni Bestu deildarinnar hefst 22. september og Víkingar eiga að spila 29. september og 6. október eða sitt hvorum megin við þennan fyrsta leik þeirra.
Næstu tveir leikir Víkinga í Sambandsdeildinni verða síðan á heimavelli, fyrst 24. október á móti Cercle Brugge frá Belgíu og svo 7. nóvember á móti Borac Banja Luka frá Bosníu.
Það þýðir að næsti útileikur liðsins fer ekki fram fyrr en 28. nóvember eða löngu eftir að úrslitakeppni Bestu deildar karla lýkur. Lokumferð Íslandsmótsins á að fara fram 26. október.
Alls líða því 56 dagar á milli útileikja Víkinga í Sambandsdeildinni og það verður því ekkert meira um löng ferðalög á meðan þeir klára Bestu deildina.
Víkingar spila 28. nóvember á móti Noah úti í Armeníu og síðan verður síðasti heimaleikurinn á móti Djurgården 12. desember. Lokaleikurinn er síðan á útivelli á móti LASK frá Austurríki 19. desember.