Edmundo González, frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, er meðal annars sakaður um að falsa opinber skjöl, hvatningu til að hunsa lög og samsæri gegn venesúelskum stjórnvöldum. Handtökuskipunin var gefin út nokkrum klukkustundum eftir að bandarísk yfirvöld lögðu hald á einkaþotu Nicolás Maduro forseta í Dóminíska lýðveldinu.
Ásakanirnar tengjast fullyrðingum stjórnarandstöðunnar að González hafi farið með sigur af hólmi í forsetakosningunum. Opinber kjörstjórn landsins lýsti Nicolás Maduro, sitjandi forseta, sigurvegara en stjórnarandstaðan, sum vestræn ríki og sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt skort á gegnsæi í kosningunum. Opinberar tölur hafa ekki verið birtar fyrir alla kjörstaði, ólíkt fyrri kosningum.
Stjórnarandstaðan birti gögn sem hún sagði talningablöð frá meirihluta kjörstaða í landinu sem hún sagði sýna að González væri lögmætur sigurvegari kosninganna. Maduro hefur hótað González og Maríu Corinu Machado, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, fangelsi fyrir að lýsa sjálfum sér sem sigurvegurum. Þau fóru í felur vegna þess eftir kosningar.
„Þau hafa misst allt veruleikaskyn. Að hóta verðandi forseta eykur aðeins samstöðu og stuðning Venesúelabúa og heimsins við Edmundo González,“ sagði Machado á samfélagsmiðlinum X um handtökuskipunina á hendur González.
González ætti líklegast yfir höfði sér stofufangelsi þar sem lög í Venesúela gera ekki ráð fyrir því að fólk yfir sjötugu sé vistað í fangelsum landsins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Að minnsta kosti 27 manns hafa látist í aðgerðum stjórnvalda til þess að bæla niður mótmæli eftir kosningarnar og um 2.400 manns hafa verið handteknir.