Innlent

Skúta slitnaði frá bryggju í af­taka­veðri fyrir vestan

Árni Sæberg skrifar
Skútan rak upp í grjótgarðinn.
Skútan rak upp í grjótgarðinn. Valur Andersen

Bálhvasst hefur verið á Norðvesturlandi og á Vestfjörðum í morgun og björgunarsveitum á svæðinu hafa borist fjölmargar tilkynningar. Á Ísafirði slitnaði lítil skúta frá bryggju og rak upp í grjótgarðinn við Pollinn.

Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við Vísi. Hann segir að áhöfn björgunarskipsins Gísla Jóns hafi ekki þurft að fara langt og náð skútunni í tog áður en illa fór.

Sjórinn var úfinn en áhöfn Gísla Jóns kom skútinni snarlega í tog.Valur Andersen

Hann segist hvorki búa yfir upplýsingum um hvort skútan hafi verið mönnuð né hvort slys hafi orðið á fólki. Af myndum að dæma virðist skútan nokkuð heilleg, þrátt fyrir að hafa rekið upp í grjótgarðinn.

Skútan virðist ekki alvarlega skemmd en ástand hennar liggur ekki fyrir.Valur Andersen

Pollgötu lokað að hluta

Í tilkynningu Lögreglunnar á Vestfjörðum á Facebook segir að Pollgötu hafi verið lokað að hluta vegna málsins, frá hringtorgi að innkeyrslu að verslunarmiðstöðinni Neista.

Flotbryggja losnaði líka

Þá segir Jón Þór að útköll hafi borist um dittinn og dattinn á Norðvesturlandi og Vestfjörðum. Til að mynda hafi björgunarsveitarmenn brugðist við þegar flotbryggja losnaði frá landi á Reykhólum.

Skútan var á Pollinum þegar hún fór af stað.Valur Andersen


Áttu myndefni frá vonskuveðrinu á Vestfjörðum? Sendu okkur á ritstjorn@visir.is.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×