Fótbolti

Þekkir nokkra í danska liðinu og ætlar að „pakka þeim saman“ í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Kristall Máni Ingason er klár í slaginn gegn Dönum í dag.
Kristall Máni Ingason er klár í slaginn gegn Dönum í dag. vísir/Sigurjón

Kristall Máni Ingason er kokhraustur fyrir leikinn við Danmörku í dag, í undankeppni EM U21-landsliða í fótbolta. Spilað verður í Víkinni, á gamla heimavellinum hans Kristals.

Ísland og Danmörk mætast í Víkinni í dag klukkan 15, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. 

Kristall er sérstaklega spenntur fyrir því að mæta Dönum, en hann spilar með Sönderjyske í Danmörku og var í ungmennaliðum FC Kaupmannahafnar.

„Ég spila í Danmörku svo þetta er extra spennandi, þar sem maður þekkir nokkra þarna. Við erum ekki að fara að láta þá koma hingað og taka einhverja punkta.

Það eru einhverjir þarna sem ég spilaði með þegar ég var yngri, þannig að maður er bara að fara að taka þá og pakka þeim saman,“ sagði Kristall Máni léttur en þó staðráðinn í að standa við stóru orðin.

„Við verðum bara að vera fastir fyrir og spila okkar bolta, sýna hvað við getum. Við erum með góða leikmenn. Tökum jafnvel einhver mörk úr föstum leikatriðum og höldum vonandi hreinu,“ sagði Kristall.

Víkin hefur verið heimavöllur U21-landsliðsins og þar er Kristall að sjálfsögðu öllum hnútum kunnugur eftir að hafa verið leikmaður Víkings.

„Það er eins og að maður sé mættur heim. Algjör heimaleikur og ég man bara ekki eftir að hafa tapað hérna. Maður fer ekki að gera það [í dag].“

Klippa: Kristall Máni mætir gömlum félögum í dag



Fleiri fréttir

Sjá meira


×