Hermann Þór Ragnarsson og Bjarki Björn Gunnarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir ÍBV í dag.
Sigur ÍBV þýðir að aðeins Fjölnismenn eiga raunhæfa möguleika á að ná toppsætinu af Eyjamönnum, eftir 2-0 sigur Fjölnis gegn Aftureldingu í dag. Einu stigi munar á ÍBV og Fjölni fyrir lokaumferðina.
ÍBV sækir Leikni heim í Breiðholtið í lokaumferðinni en ef liðið vinnur ekki þann leik getur Fjölnir tekið toppsætið með sigri gegn Keflavík á útivelli. Keflavík og ÍR eru þremur stigum á eftir ÍBV en með svo mikið lakari markatölu að algjörlega óraunhæft er að þau taki toppsætið.
Þórsarar endanlega sloppnir
Þórsarar geta andað léttar því eftir 2-0 sigur á Dalvík/Reyni í dag eru þeir endanlega öruggir um að sleppa við fall. Þar að auki tapaði svo Grótta 2-1 gegn ÍR í Breiðholtinu svo það eru Gróttumenn sem fylgja Dalvík/Reyni niður í 2. deild.
Hart barist um sæti í umspilinu
Í lokaumferðinni er mikil spenna varðandi það hvaða fjögur lið leika í umspilinu um seinna lausa sætið í Bestu deildinni. Liðin sem enda í 2.-5. sæti fara í það umspil.
Fjölnir er nú með 37 stig í 2. sæti, Keflavík og ÍR 35, og Afturelding 33, en Njarðvík er utan umspilsins með 32 stig. Þá er von Þróttara úr sögunni eftir 3-2 tap gegn Leikni í Laugardalnum í dag.
Í lokaumferðinni mætast eins og fyrr segir Keflavík og Fjölnir suður með sjó, og Afturelding tekur á móti ÍR, svo að Njarðvík getur með sigri á Grindavík tryggt sig inn í umspilið að minnsta kosti á kostnað ÍR eða Aftureldingar.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru af Fótbolti.net.