Innlent

Fundu egg­vopn, skot­færi og hnúa­járn

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu réðst í húsleit síðdegis í gær þar sem meðal annars var lagt hald á eggvopn, rafbyssu, skotfæri og hnúajárn.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur ekki fram hvar húsleitin var gerð nema það hafi verið á svæði lögreglustöðvar 3 sem nær yfir Breiðholt og Kópavog. Málið var afgreitt með skýrslutöku á staðnum og afsali á munum.

Þá segir í tilkynningu að karl og kona hafi verið handtekin vegna rannsóknar á heimilisofbeldi og voru þau bæði vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar eftir aðhlynningu á bráðamóttöku.

Í miðborg Reykjavíkur var lögregla kölluð út eftir tilkynnt var um þjófnað í matvöruverslun og þá var tilkynnt um konu sem var flutt á bráðamóttöku eftir slys á rafhlaupahjóli.

Ennfremur segir frá því að ökumaður hafi verið handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda.

Þá var góðkunningja lögreglu ekið frá heilbrigðisstofnun að félagslegu úrræði eftir að hann hafði verið til ama á stofnuninni. „Okkar maður sáttur með þjónustu lögreglu,“ segir í tilkynningu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×