Dagur leysir frá skjóðunni í færslu á samfélagsmiðlinum Facebook. Þar segist hann hafa tekið þátt í hlaupi í Englandi sem ber heitið The Great Northern Run en með honum í för var meðal annars Guðmundur Steingrímsson fyrrverandi þingmaður. Dagur segist hafa látið til leiðast þar sem um góðgerðarhlaup hafi verið að ræða og segist hann hafa hlaupið fyrir Bergið, headspace.
„Ég var satt að segja ekki viss um að ég gæti þetta - en viti menn - ég bar gæfu til að fara á mínum hraða, leið vel allan tímann og kom brosandi í mark, án þess að hafa þurft að grípa til þess ráðs að ganga eða hægja á mér þessa 21 kílómetra sem hlaupið stóð,“ segir Dagur. Hann þakkar sérstaklega tónlistinni fyrir að hafa komist svona langt og þakkar þó nokkrum tónlistarmönnum fyrir.
„Fyrir mér var þetta satt best að segja býsna stór áfangi. Það eru auðvitað ekki mörg ár síðan ég gat varla gengið og þurfti að styðjast við staf vetrarlangt vegna gigtarinnar. Nú hefur mér tekist að vera lyfjalaus sl. tvö ár með hjálp míns frábæra gigtarlæknis og líður framúrskarandi vel. Já, ég hef sannarlega margt til að vera þakklátur fyrir - meðal annars frábæra vini sem draga mann út í svona vitleysu!“
Dagur greindist fyrst með gigt árið 2018 og ræddi hana meðal annars í opinskáu viðtali í Fréttablaðinu. Þar sagðist hann fyrst hafa haldið að hann væri fótbrotinn þegar einkenni gigtarinnar komu upp. Síðar hafi afneitun fylgt á eftir áður en hann hóf meðferð gegn sjúkdómnum.