Í færslu sendiráðs Íslands í Bandaríkjunum segir að afhendingin hafi farið fram við hátíðlega athöfn á skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu þar sem sendiherra bar forsetanum kveðju forseta Íslands og ríkisstjórnar.
Í stuttu samtali hafi þau rætt þétt og langvarandi samstarf Íslands og Bandaríkjanna, en í ár séu áttatíu ár liðin frá stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna. Forsetinn hafi undirstrikað leiðtogahlutverk Íslands þegar kemur að endurnýjanlegri orkunýtingu og nýstárlegum loftslagslausnum og mikilvægt framlag Íslands til málefna norðurslóða.
Þá hafi hann lagt áherslu á mikilvægi áframhaldandi farsæls samstarfs á sviði öryggis og varnarmála.
Svanhildur Hólm Valsdóttir er sautjándi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.