Erlent

Marx­isti kjörinn for­seti Srí Lanka

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Anura Kumara Dissanayake veifar stuðningsmönnum sínum eftir að niðurstöður kosninganna voru kunngjörðar.
Anura Kumara Dissanayake veifar stuðningsmönnum sínum eftir að niðurstöður kosninganna voru kunngjörðar. AP/Rajesh Kumar Singh

Marxistinn Anura Kumara Dissanayake var kjörinn forseti Srí Lanka í gær eftir aðra umferð forsetakosninga þar í landi.

Enginn frambjóðandi náði meira en helmingi atkvæði í fyrstu umferð kosninganna. Dissanayake hlaut 42,32 prósent, Sajith Premadasa sem er leiðtogi stjórnarandstöðunnar hlaut 32,76 prósent og Ranil Wickremesinghe, sitjandi forseti, hlaut aðeins sautján prósent atkvæða.

Því var farið í aðra umferð þar sem valið var á milli tveggja efstu frambjóðenda og annað og þriðja val kjósenda var talið með. Þar endaði Dissanayake með 5.740.179 atkvæði á móti 4.530.092 atkvæðum Premadasa.

Neyðarlán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í brennidepli

Kosningarnar voru þær fyrstu frá 2022 þegar þáverandi forseti Gotabaya Rajapaksa hrökklaðist úr embætti í kjölfar mikilla mótmæla vegna krappra kjara og efnahagskrísu landsins. 

Efnahagsmál hafa verið í brennidepli í kosningabaráttunni og sérstaklega skilyrði neyðarláns sem ríkið tók hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum.

„Sigurinn tilheyrir okkur öllum,“ sagði Dissanayake í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) eftir kosningasigurinn. 

Fram að þessum kosningum allir átta forsetar Srí Lanka frá 1982 hrósað sigri eftir fyrstu umferð. Kosningarnar eru því sögulegar að því leyti að aldrei hefur verið jafn mjótt á munum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×