Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið um klukkan tíu í morgun, sótti varðstjóra lögreglunnar á Ísafirði, og hélt svo í könnunarflugið. Helgi Jensson lögreglustjóri segir ekkert hafa sést, hvorki birni né ummerki um þá.
„Þeir leituðu yfir stórt svæði, fóru alveg suður að Bjarnarfirði á Ströndum, og leituðu svo Hornstrandir og Jökulfirði. Það var ekkert að sjá og við erum búnir að leita eins vel og við getum, teljum við,“ segir Helgi.
Ekki standi til að fara í aðra ferð, nema ábendingar um veru hvítabjarna á svæðinu berist.