Kamala Harris, varaforseti og forsetaefni Demókrataflokksins, hefur verið að mælast með um þriggja prósenta forskot á Trump á landsvísu og þá er einnig afar mjótt á munum í svokölluðum barátturíkjum.
Harris hefur verið að mælast með allt að sex prósent forskot á Trump í Pennsylvaníu, þar sem sigur tryggir 19 kjörmenn. Hún er hins vegar með aðeins eins til tveggja prósenta forskot í Michigan og Wisconsin.
Þá sýna niðurstöður nýjustu skoðanakannana New York Times og Siena College að Trump hefur náð Harris og aukið fylgi sitt í Norður-Karólínu, Arizona og Georgíu, þar sem hann nýtur nú tveggja til fimm prósenta forskots.
Áhyggjur Demókrata byggja meðal annars á því að Trump fékk töluvert meira fylgi í Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin í kosningunum 2016 og 2020 en hann mældist með í skoðanakönnunum. Ef skekkjan reynist jafn mikil nú myndi hann fara með sigur af hólmi í öllum barátturíkjunum sjö, en þar er ónefnt Nevada.
Samkvæmt spá Focaldata, sem tekur tillit til samsetningu kjósenda á hverjum stað, fengi Harris líklega að meðaltali 2,4 prósent færri atkvæði í barátturíkjunum en kannanir sýna.
Demókratar horfa einnig til þess að bæði Hillary Clinton og Joe Biden mældust með meira forskot á Trump árin 2016 og 2020 en Harris nú.
Ljósi punkturinn í myrkrinu er hins vegar sá að ef skoðanakannanir reynast jafn „skakkar“ og þær reyndust fyrir þingkosningarnar 2022 þá myndi Harris taka öll barátturíkin utan Georgíu.