„Þeir eiga örugglega eftir að ganga af okkur dauðum. Það er fullt af góðum tennisspilurum að missa af mótum vegna meiðsla,“ sagði Alcaraz um helgina á Laver-bikarnum í Berlín, þar sem úrvalslið Evrópu mætti úrvalsliði annarra heimsálfa. Evrópa fagnaði þar sigri, 13-11.
Alcaraz hefur átt frábært ár og unnið tvö risamót; Opna franska og Wimbledon-mótið, auk þess að fá silfur á Ólympíuleikunum. Eftir leikana hefur hins vegar alls ekki gengið eins vel og álagið mögulega sagt til sín.
Sá efsti ekki sammála
„Ég veit um marga tennisspilara sem eru sammála mér um dagskrána,“ sagði Alcaraz en efsti maður heimslistans, Ítalinn Jannik Sinner sem vann Opna bandaríska mótið fyrir skömmu, er ekki sammála.
„Dagskráin er auðvitað löng en við getum ráðið því á hvaða mótum við spilum,“ sagði Sinner í Kína á þriðjudag. Alcaraz brást svo við þessum ummælum með því að segja:
„Sitt sýnist hverjum auðvitað. Mér finnst alla vega sjálfum að dagskráin sé búin að vera svo þétt frá fyrstu viku janúar til lokaviku nóvember. Við verðum að tala um þetta sjálf og gera eitthvað í þessu,“ sagði Alcaraz í gær.