Þessu mátti kynnast í fjórða þætti Flugþjóðarinnar á Stöð 2. Þar er fjallað um efnahagsáhrifin af flugstarfsemi Íslendinga. Hér má sjá fimm mínútna myndskeið úr þættinum:
Störfin sem tengjast flugrekstrinum bara á Keflavíkurflugvelli eru mörg þúsund, eins og greining Aton fyrir Isavia leiddi í ljós.
„Það sem kom mér mest á óvart er hvað margir vinna við flugvöllinn sem slíkan. Að koma flugvélunum á sinn stað, að ná í töskurnar. Að gera bara allt í kringum flugvöllinn,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson, ráðgjafi hjá Aton.

Á árunum 2016 til 2017 hafi þetta verið milli sex og átta þúsund starfsmenn. Þeim hafi fækkað í kringum covid-heimsfaraldurinn en síðan hafi flugið tekið við sér aftur, farþegum fjölgað ört, sem og starfsmönnum.
„Og það er fyrirséð, miðað við gögn sem við höfum og farþegaspár, og áhuga á Íslandi, að það verði gríðarleg fjölgun. Og við getum séð eftir einhvern tíma að það verði tíu þúsund manns að starfa bara við flugvöllinn og þá starfsemi sem er þar,“ segir Huginn.

Bara eitt dæmið er að til að aka rútunum sem flytja farþega milli flugstöðvar og flugvéla þurfti 44 starfsmenn í sumar og 26 í vetur en langt er síðan landgangarnir urðu of fáir. Rútustarfsemin er orðin ein sú umfangsmesta á landinu.
„Við erum næstfjölmennasta rútufyrirtæki landsins með fæstu kílómetrana,“ segir Ólafur Guðbergsson, deildarstjóri farþegaaksturs hjá Isavia.

Viðhaldsstöð Icelandair á Keflavíkurflugvelli er langstærsti vinnustaður flugvirkja á Íslandi. Tæknistjóri viðhaldsstöðvarinnar, Hörður Már Harðarson, segir að þar starfi yfir þrjúhundruð manns, þar af yfir tvöhundruð flugvirkjar.
„Það má líkja þessu bara við nokkuð stórt álver. Hér eru miklir fagmenn í vinnu og þetta telst til nokkuð vel launaðra starfa. Þannig að hér er þó nokkuð mikil skatttekja fyrir hið opinbera. Þannig að sannarlega er þetta gott fyrir þjóðarbúið, tel ég,“ segir Hörður.

Íslendingar hafa frá árinu 1948 annast flugumferðarþjónustu á Norður-Atlantshafi, á svæði sem nær allt til Norðurpólsins. Þjónustan hófst í gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli skömmu eftir síðari heimsstyrjöld en er núna til húsa í flugstjórnarmiðstöðinni á vellinum.
Flugumferðarstjórinn Ásgeir Pálsson vann við þetta í 46 ár, þar af stýrði hann flugstjórnarmiðstöðinni í aldarfjórðung.
„Ég hef oft höfðað til þess að þetta sé minnst þekkti útflutningsatvinnuvegur Íslands. Út af því að þetta er auðvitað borgað af notendagjöldum af þeirri flugumferð sem flýgur hérna yfir,“ sagði Ásgeir, sem er fyrrum framkvæmdastjóri Isavia ANS.

Kjartan Briem, framkvæmdastjóri dótturfélags Isavia, segir að í fyrra hafi gjaldeyristekjur vegna starfseminnar verið milli átta og níu milljarðar króna.
Kjartan segir að í flugstjórnarmiðstöðinni starfi um 250 manns vegna alþjóðaflugsins og áætlar að fimmtíu til eitthundrað störf til viðbótar tengist starfseminni.

Njáll Trausti Friðbertsson starfaði sem flugumferðarstjóri í rúm 30 ár á Akureyrarflugvelli en hann er núna eini alþingismaðurinn sem á rætur í fluggeiranum.
„Það eru fá lönd hér í Vestur-Evrópu, eða bara í heiminum, þar sem þetta er stærri hluti af efnahagslífi þjóðar. Þetta er gríðarlega stór atvinnugrein í okkar umhverfi,“ segir Njáll Trausti.
Í fimmta þætti Flugþjóðarinnar mánudagskvöldið 30. september fylgjum við áhöfn Air Atlanta á Boeing 747-fraktþotu í hringferð um Afríku.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvenær sem er. Hér má sjá kynningarstiklu fyrir þáttaröðina: