Skjálftinn átti upptök sín um 6,4 kílómetra norðaustur af Goðabungu. Örfáum mínútum síðar kom svo annar í kjölfarið, upp á 2,4 stig á sömu slóðum. Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að lítið sé hægt að lesa í þennan tiltekna atburð en segir þó eftirtektarvert að um stærsta skjálfta á þessu ári í Mýrdalsjökli sé að ræða.
Hann segir að ekki sé um hrinu að ræða enn sem komið er í það minnsta en svo gæti verið að hræringarnar tengist hlaupinu sem hefur staðið yfir í Skálm, sem er í nágrenninu. Það sé þó ekki vitað.
„Við erum bara að vakta þetta og sjá hvað gerist,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis og bætir við að ekki sé ástæða til að hafa miklar áhyggjur.