Í tilkynningu þess efnis á vef Stjórnarráðsins segir að Þóra hafi lokið doktorsprófi árið 2002 frá Dýralæknaháskólanum í Noregi (Norges Veterinærhøgskole, NVH) og embættisprófi í dýralækningum árið 1990 frá sama skóla. Þóra stundi meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, hafi lokið leiðsögunámi og námi í sjúkraflutningum.
Þóra hafi starfað hjá Matvælastofnun sem sérgreinadýralæknir frá árinu 2013 og verið eftirlitsdýralæknir Suðvesturumdæmis árið 2009. Hún hafi komið að stofnun lyfjaþróunarfyrirtækisins Oncoinvent hf 2010, hafi verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins fram til ársins 2013 og setið í stjórn þess til ársins 2024.
Þóra hafi verið umsjónarmaður Dýraauðkennis hjá Dýralæknafélagi Íslands á árunum 2010 til 2014 og verkefnastjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu frá 2000 til 2002. Þóra hafi um árabil verið búsett í Noregi og rúmt ár í Bandaríkjunum þar sem hún hafi starfað sem dýralæknir og lagt stund á kennslu og rannsóknir, meðal annars sem dósent og doktor við NVH á árunum 2002 til 2015. Þá hafi Þóra verið héraðsdýralæknir hjá embætti yfirdýralæknis í Ísafjarðarumdæmi á árunum 1990 til 1993.
Þóra hafi setið í stjórnum, ráðum, nefndum og hópum tengdum meðal annars heilsu, velferð og vernd dýra sem fulltrúi Íslands í Norðurlandasamstarfi, á vegum Evrópusambandsins og Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni. Hún hafi ritað fjölda vísindagreina í alþjóðleg ritrýnd tímarit og haldið erindi og kynningar á ráðstefnum bæði hér á landi og erlendis.
Embætti yfirdýralæknis hafi verið auglýst laust til umsóknar 4. júlí sl. og fjórar umsóknir borist um starfið. Brigitte Brugger sérgreinadýralæknir, Egill Þorri Steingrímsson dýralæknir og Vigdís Tryggvadóttir sérgreinadýralæknir sóttu einnig um starfið.
Matvælaráðherra skipi í embættið til fimm ára að undangengnu mati hæfnisnefndar.