Réttarhöldin höfðu staðið yfir í um þrjár vikur og tók það kviðdómendur sex klukkustundir að komast að niðurstöðu. Dómsuppkvaðning á að fara fram á næsta ári en mennirnir standa frammi fyrir allt að tuttugu ára fangelsisvist vegna sakfellingarinnar fyrir að hafa áhrif á vitni.
Fimm fyrrverandi lögregluþjónar voru ákærðir fyrir að valda dauða Tyre Nichols, sem var 29 ára gamall, eftir að þeir stöðvuðu hann í umferðinni þann 7. janúar í fyrra.
Hann átti að hafa brotið umferðarlög en lögregluþjónar drógu hann út úr bílnum. Minnst einn þeirra hélt á byssu og annar skaut Nichols með rafmagnsbyssu. Þá reyndi hann að hlaupa heim til móður sinnar sem bjó í ekki hundrað metra fjarlægð.
Nichols var stöðvaður og lögregluþjónarnir kýldu og spörkuðu ítrekað í hann á meðan hann lá í jörðinni og kallaði eftir aðstoð. Í kjölfar þess gerðu lögregluþjónarnir ekkert til að huga að Nichols einn þeirra tók myndir af honum. Hann var ekki fluttur á sjúkrahús fyrr en 27 mínútum eftir að sjúkraflutningamenn bar að garði.
Nichols lést þremur dögum síðar á sjúkrahúsi.
Mennirnir þrír, og tveir aðrir sem hafa játað sekt sína, standa enn frammi fyrir vægari ákærum, samkvæmt frétt New York Times.
Sjá einnig: Lögregluþjónarnir lýsa yfir sakleysi
NYT hefur eftir RowVaughn Wells, móður Nichols, að hún og fjölskylda hennar séu ánægð með að mennirnir hafi verið sakfelldir og þeir eigi skilið að fara í fangelsi. Wall Street Journal segir fjölskylduna hafa höfðað mál gegn Memphis og krefst hún 500 milljóna dala.
Lögregluþjónarnir fimm tilheyrðu allir sérstöku teymi innan lögreglunnar í Memphis þar sem mikil áhersla var lögð á fjölda handtaka og haldlagninu á fíkniefnum. Réttarhöldin þykja hafa varpað ljósi á ofbeldismenningu innan lögreglunnar í Memphis, þar sem lögregluþjónar hafi hjálpað hvorum öðrum að hylma yfir ofbeldi þeirra.