Ten Hag situr í afar heitu sæti og má ekki við slæmum úrslitum gegn Aston Villa í dag. Van Nistelrooy er aðstoðarmaður Ten Hags og samkvæmt veðbönkum þykir hann líklegastur til að taka við af honum, verði hann látinn taka pokann sinn.
Mirror greinir frá því að Van Nistelrooy sé efins um að taka starfið að sér þar sem litið verði svo á að hann hafi svikið Ten Hag.
Van Nistelrooy var ráðinn aðstoðarþjálfari United í sumar. Hann var áður knattspyrnustjóri PSV Eindhoven og gerði liðið að bikarmeisturum í Hollandi.
Van Nistelrooy hætti hins vegar hjá PSV eftir að honum fannst aðstoðarmaður sinn og nokkrir eldri leikmenn hafa farið á bak við sig. Hann vill því ekki að sama staða komi upp hjá United.
Rauðu djöflarnir eru í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir sex leiki og hafa aðeins skorað fimm mörk.