Í drögum að ályktuninni sem fréttastofa hefur undir höndum kemur fram að æskilegt sé að horfa til þess að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn og boða til kosninga með vorinu.
Mbl greindi fyrst frá samþyktinni. Í frétt miðilsins segir að ályktuninni hafi verið breytt í samráði við flutningsfólk áður en hún var samþykkt. Samkvæmt heimildum fréttastofu var einróma samþykki um breytinguna.
Í ályktuninni segir jafnframt að ríkisstjórnin hafi verið upphaflega mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og þannig hafi komist á festa í stjórnmálum undir forystu Vinstri grænna. Síðan þá hafi hreyfingin náð fram mörgum mikilvægum málum en að brýn verkefni séu framundan.
Til að hægt sé að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram telji landsfundurinn að takast verði á við þau knýjandi verkefni sem blasa við á félagslegum grunni. Þá telji fundurinn að ganga verði til kosninga með vorinu.
Landsfundur VG fór fram í Víkingsheimilinu í Safamýri nú um helgina. Fyrir fundinum lá tillaga að ályktun um að ríkisstjórnarsamstarfinu verði slitið. Orri Páll Jóhannsson þingflokksformaður Vinstri grænna sagði í samtali við fréttastofu í gær að erfitt væri að segja til um hve margir væru fylgjandi tillögu um stjórnarslit.
Á landsfundinum var Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra kjörin formaður flokksins og Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður.
Nýir meðstjórnendur í stjórn Vinstri grænna eru Aldey Unnar Traustadóttir, Anna Þorsteinsdóttir, Elín Björk Jónasdóttir, Fjölnir Sæmundsson, Jósúa Gabríel Davíðsson, Maarit Kaipainen og Pétur Heimisson.
Þá eru Jódís Skúladóttir, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Berglind Häsler varamenn.
Fréttin hefur verið uppfærð.