Gareth Southgate ákvað að nýta ekki krafta Grealish á mótinu en enska landsliðið komst í úrslitaleikinn, þar sem það tapaði fyrir Spáni.
Grealish hefur aftur á móti byrjað báða leiki Englands í Þjóðadeildinni í haust, undir stjórn Lee Carsley sem nú stýrir Englandi tímabundið eftir að Southgate hætti í sumar.
„Ég skal vera hreinskilinn með þetta. Ég var ekki alveg sammála þessu,“ sagði Grealish við BBC um þá ákvörðun Southgate að velja hann ekki á EM.
Hann viðurkenndi þó að hafa „ekki átt sitt besta tímabil“ fyrir City síðasta vetur en bætti við:
„Þú verður að hafa ákveðið jafnvægi í öllum stöðum á vellinum og ég lít á sjálfan mig sem ansi reynslumikinn leikmann núna,“ sagði Grealish og bætti við:
„Ég hef unnið fullt af titlum núna svo ef þú spyrð mig, já, ég tel enn að ég hefði átt að fara á mótið en því var augljóslega ekki ætlað að verða.“
Grealish var í byrjunarliðinu í sigri gegn Írunum hans Heimis Hallgrímssonar í síðasta mánuði, og skoraði, og byrjaði aftur leikinn í sigri gegn Finnum. Nú taka við leikir við Grikkland og Finnland á næstu dögum.
„Ég vildi auðvitað koma hingað og æfa vel og spila vel. Ég er þakklátur Lee Carsley fyrir að gefa mér tækifæri og hafa trú á mér. Það hafði augljóslega mikið að segja fyrir mig. Ég held að það hafi sýnt sig á mínum ferli að þegar stjórar sýna mér trú og koma fram við mig eins og hann gerði í fyrstu tveimur leikjunum, þá hjálpar það mér mikið,“ sagði Grealish.