Innlent

Báðu um paramynd og augna­bliki síðar var veskið horfið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ferðamenn á snæðingi á Þingvöllum.
Ferðamenn á snæðingi á Þingvöllum. Vísir/vilhelm

Ferðamaður tók vel í beiðni pars um að hann tæki af þeim paramynd á Þingvöllum í morgun. Þegar myndatökunni var lokið og parið á bak og burt áttaði ferðamaðurinn sig á því að hann var kortaveskinu fátækari.

Gylfi Þór Þórisson er leiðsögumaður með fulla rútu af ferðafólki á flakki um vinsælustu ferðamannastaði Suðvesturlandsins í dag. Hann lét kollega sína vita af vasaþjófunum með færslu í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook.

„Þetta er óþægilegt fyrir alla. Skaðinn er ekki stór því það var bara eitt kort í veskinu og búið að loka því,“ segir Gylfi Þór. Upplifunin fyrir ferðamennina sé ekki góð.

„Það er sama hvort þú tapar fjármunum eða ekki, það er óþægilegt að láta stela af sér.“

Gylfi Þór er meðvitaður um hættuna af vasaþjófum enda ekki í fyrsta skipti sem heyrist af vasaþjófum á vinsælustu ferðamannastöðunum sem tilheyra Gullna hringnum. Á sumum stöðum er varað við vasaþjófnaði á skiltum.

Gylfi Þór segir þjófnað á borð við þennan oft tilkynntan en aldrei náist neinn. Hann hafi í þetta skiptið ekki einu sinni hringt í lögregluna heldur látið nægja að segja starfsmönnum þjóðgarðarins frá.

„Þeir hafa eflaust látið lögreglu vita.“

Hann segist hafa deilt upplýsingunum með öðrum leiðsögumönnum í fyrrnefndum Facebook-hópi til að þeir geti varað ferðamenn á sínum vegum við. Vasaþjófarnir flakki um Gullna hringinn líkt og ferðamennirnir.

Fólkið í hans rútu passi í það minnsta vasana sína vel eftir þessa upplifun.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi ræddi vasaþjófnað í Reykjavík síðdegis í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×