Í dagbókarfærslu lögreglu fyrir gærkvöldi og nóttina segir að einn hafi verið handtekinn í kjölfar líkamsárásar þar sem hníf var beitt. Áverkar árásarþola eru sagðir hafa verið minniháttar en engar frekari upplýsingar um málið er að finna í yfirliti lögreglu.
Samkvæmt heimildum Vísis var árásin framin í gistiskýlinu á Lindargötu, þar sem 25 heimilislausir karlmenn fá inni. Áverkar hins stungna hafi ekki verið mjög alvarlegir en talsvert hafi sést á honum.
Talsvert um vopnaburð
Samkvæmt heimildum er vopnaburður inni í gistiskýlinu talsverður og árásin nú hafi verið framin með hníf sem ekki er ætlaður til eldamennsku eða annarrar löglegrar brúkunar.
Í lok ágúst var greint frá því að tveir hafi verið stungnir í gistiskýlinu á Granda. Hvorugur hlaut alvarlega áverka en annar hinna stungnu var sendur á slysadeild til aðhlynningar. Stuttu síðar var grunaður árásarmaður handtekinn skammt frá vettvangi þar sem hann hafði falið sig undir bifreið.