Handbolti

„Verið að selja Gummersbach-treyjur á svarta markaðnum í Eyjum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson og félagar hans í Gummersbach eru klárir í slaginn gegn FH.
Elliði Snær Viðarsson og félagar hans í Gummersbach eru klárir í slaginn gegn FH. stöð 2

Elliði Snær Viðarsson, leikmaður Gummersbach, hlakkar til leiksins gegn FH í Evrópudeildinni. Hann á von á því að þýska liðið fái góðan stuðning frá Eyjamönnum í kvöld og segir FH-inga verðuga andstæðinga.

Boðið verður upp á sannkallaða handboltaveislu í Kaplakrika í dag en þá mæta Valur og Íslandsmeistarar FH tveimur Íslendingaliðum, Porto og Gummersbach, í Evrópudeildinni. Guðjón Valur Sigurðsson stýrir Gummersbach og Elliði leikur með liðinu.

„Síðasta þriðjudag var fyrsti Evrópuleikurinn minn og að koma strax til Íslands er ótrúlega sérstakt og gaman og verðugt verkefni,“ sagði Elliði í samtali við Val Pál Eiríksson.

Elliði hefur leikið með Gummersbach síðan 2020 og hefur tekið þátt í miklum uppgangi hjá liðinu.

„Það er búið að vera markmiðið hjá mér persónulega að fara að komast í Evrópukeppni og það er frábært að ná því með liðinu sínu. Ég er að fara á fimmta tímabil með því og við stefndum alltaf á að komast í Evrópukeppnina. Það er búinn að vera ótrúlegur uppgangur hjá okkur síðustu ár og að við séum búin að ná þessu úr annarri deildinni á fjórum árum; ég get eiginlega ekki verið stoltari af liðinu og öllu í kringum það,“ sagði Elliði en Gummersbach vann Sävehof í fyrsta leik sínum í Evrópudeildinni.

Ísrúntur á rútu

Gummersbach kom til landsins í fyrradag og Guðjón Valur fór með liðið á heimaslóðir, í Neslaugina, og svo í ísbúð.

„Liðið fór allt saman í Seltjarnarneslaugina í gærkvöldi [í fyrradag] og fengum okkur svo ís. Það var ný upplifun að fara á ísrúnt á rútu. Það var mjög skemmtilegt,“ sagði Elliði. 

„Það var langur dagur í gær [í fyrradag]. Í dag [í gær] reynir maður að hitta vini og ættingja en maður þarf líka að koma sér yfir á íslenska tímann svo maður verði ekki sofnaður þegar leikurinn byrjar. Hann er full seint á þýskum tíma, klukkan 22:30, en við hljótum að lifa það af.“

Taka á sig tveggja daga ferðalag

Elliði og samherjar hans fá góðan stuðning frá sveitungum hans úr Vestmannaeyjum í leiknum í dag.

„Það er verið að selja Gummersbach-treyjur á svarta markaðnum í Eyjum hef ég verið að heyra,“ sagði Elliði léttur.

Elliði hefur átt stóran þátt í uppgangi Gummersbach síðustu ár.gummersbach

„Það eru einhverjir Vestmannaeyingar á leiðinni og bara ágætis fjöldi held ég. Það er ótrúlega gaman hvað það eru margir tilbúnir að taka á sig tveggja daga ferðalag. Þú kemst ekki heim um kvöldið. Ég er ótrúlega þakklátur og stoltur af þeir vilji koma og horfa á Gummersbach og þessa handboltaveislu.“

Komu á óvart gegn Toulouse

FH bíður Gummersbach í kvöld en Íslandsmeistararnir stóðu uppi í hárinu á Toulouse í fyrsta leik sínum í Evrópudeildinni, þrátt fyrir að vera án Arons Pálmarssonar. Elliði segir að Gummersbach taki verkefni kvöldsins mjög alvarlega.

Klippa: Viðtal við Elliða

„Það eru búin að vera mörg spurningarmerki, hverjir spila og hverjir ekki, en við gerum bara fastlega ráð fyrir því allir séu með og undirbúum okkur svoleiðis. Þetta er mjög verðugt verkefni,“ sagði Elliði.

„Þeir komu mjög á óvart á móti þessu Toulouse-liði. Þeir hækkuðu sig sem lið og voru ótrúlega góðir á móti Toulouse þannig ég á von á að þeir verði fullmannaðir og mæti stemmdir og tilbúnir í alvöru tempóleik.“

Horfa má á viðtalið við Elliða í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×